This website is using cookies

We use cookies to ensure that we give you the best experience on our website. If you continue without changing your settings, we'll assume that you are happy to receive all cookies on this website. 

Stefánsson, Jón Kalman: Eitthvad á stærd vid alheiminn

Portre of Stefánsson, Jón Kalman

Eitthvad á stærd vid alheiminn (Icelandic)

Guð er gamall bangsi,
og það er sjaldgæft logn hér í Keflavík
„Segðu nafn mitt, eins og þú ein getur sagt það, og þá er ég til.“

Ari vaknar við söng sem virðist berast úr miklum fjarska. Hann er dágóða stund að vakna almennilega, eða það vel að hann geti greint á milli svefns og vöku, draums og veruleika, og kannski þessvegna sem hann heldur, þó varla meira en fáein augnablik, að söngurinn sé ekki af okkar heimi, að þessa nótt hafi rofnað á milli heima og nú syngi hinir dánu fyrir hann, svona fallega, vilji hjálpa honum að vakna, hjúpa hann einhverju mjúku áður en veruleikinn skellur á honum. En svo vaknar hann alveg og man hvar hann er staddur, á Flughótelinu í Keflavík, það er desember, dýpra er varla hægt að komast inn í vetrarmyrkrið. Og einhver syngur í næsta herbergi. Að morgni þess dags þegar Ari ætlar að hitta Jakob, föður sinn, sem er kannski að deyja, að breytast í söng hinumegin, eða þá í þögn, gleymsku, við vitum ekki hvað verður ofan á þegar við deyjum, grimmdin eða gæskan, útþurrkun eða nýtt upphaf, hvort Guð sé stjörnubjartur faðmur eða gamall bangsi úr barnæskunni. Klukkan er næstum hálfníu og einhver er að syngja í næsta herbergi. Ari liggur í myrkrinu og hlustar á konu syngja einhverskonar vögguvísu á ensku, eða amerísku, syngur eins og hún sé að hugga einhvern og ekki einu sinni steypan í veggnum og járnabindingin, þessi dauðu, hörðu efni, ná að dempa væntumþykjuna í röddinni, en hún syngur svo lágt að Ari nær ekki að greina nema eina línu, þó svo óljóst að hann er ekki viss hvort hann heyri rétt: Say my name, like only you can say it, and then I know that I exist. Segðu nafn mitt eins og þú ein getur sagt það, og þá er ég til. Hann teygir sig ósjálfrátt eftir símanum, fer inn í skilaboð, ýtir á nafn Þóru, og skrifar þetta, segðu nafn mitt … ætlar að senda, en hikar, og þá er allt ónýtt, það má enginn hika, hugsa andspænis ástinni. Við hugsum of mikið, finnum of lítið til, það er ógæfa mannsins. Ari andvarpar, vistar skilaboðin sem drög.


Og það er næstum logn úti.

Sjaldgæft logn hér í Keflavík. Var það annars ekki helst á sumrin að það gerði logn, og þá gátu dagarnir verið svo tærir að það var hægt að lesa skilaboð frá eilífðinni í gegnum þá? Helvítis andskotans lognið, sagði fólkið, því reykurinn frá bræðslunni sem stóð á mörkum Njarðvíkur og Keflavíkur, lagðist þá yfir byggðina, fnyknum sló inn í öll hús, við virtumst stödd inni í illa lyktandi þoku, líkt og það væri verið að refsa okkur fyrir góða veðrið, og þær húsmæður sem voru of seinar að ná þvottinum inn þurftu að þvo hann aftur til að ná lyktinni úr. Bræðslan er löngu hætt að bræða loðnu og búið að rífa þessa stóru byggingu, og í staðinn komnar tvær skemmur, önnur nýttist sem bílasala í mörg ár, hin var bara reist til að nýta plássið, virtist góð hugmynd á sínum tíma, en þær standa báðar auðar í dag, geyma ekkert nema þögnina, og sólargeislana þegar þeir ná að síast í gegnum stórar rúðurnar, mattar af salti. Bílasalan fór á hausinn í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008, eins og fleiri slíkar, en þær eru þó ennþá allnokkrar starfandi hér í Keflavík og Njarðvík, fjölgar aftur, eru satt að segja hvergi fleiri á landinu ef miðað er við fjölda íbúa, það er eitt Íslandsmetanna sem við státum af. Flestar fjölskyldur í Keflavík eiga tvo eða þrjá bíla, og ef þeim leiðist selja þær einhvern bílinn og kaupa nýjan í staðinn, helst ekki seinna en daginn eftir. Keflvíkingum leiðist oft núorðið, kvótinn er löngu farinn, herinn farinn, Rúnni Júll dáinn, fátt eftir nema atvinnuleysi og höfuðáttirnar þrjár, vindurinn, hraunið, eilífðin, og þessvegna gráupplagt að selja bíl og kaupa svo annan, þá er eitthvað að gerast, bæði í lífi okkar og í starfi bílasalans, og Keflavík strax orðin að betri stað.

Enginn á göngu á Hafnargötunni en fáeinir bílar silast framhjá Ara, klukkan að nálgast ellefu, hann var lengi að koma sér fram úr rúminu, vögguvísan lamaði hann, lá og hlustaði allt þar til söngurinn þagnaði. Kveikti þá ljósin og sá allt, grein Siggu á skrifborðinu, bréf stjúpu undir viskíflöskunni, bréfið sem hann vissi samstundis að hann myndi ekki lesa fyrr en eftir heimsóknina til Jakobs, treysti sér ekki, þorði það ekki; sá myndirnar af börnunum þremur, Heklu, Sturlu, Grétu, viðurkenningarskjal Odds, gulu möppuna fulla af bréfum, ljósmyndum, úrklippum, ljóðum, ljóðabrotum, og síðan pokana tvo úr fríhöfninni, fulla af sælgæti sem hann hafði keypt eins og það væru aðrir tímar, börnin ennþá ung og biðu hans heima, að Þóra biði hans líka, að hann ætti heima einhverstaðar. Pokarnir blöstu við honum eins og minning um það sem hann hafði kastað frá sér, blöstu við honum eins og ásökun um að hafa ekki notið lífsins, ekki lifað nógsamlega. Þeir sem bregðast eru hvergi óhultir, jafnvel pokar fullir af sælgæti geta breyst í ásökun.

Stór pallbíll kemur niður Hafnargötuna, hægir á sér þegar hann nálgast Ara og ökumaðurinn virðir hann fyrir sér, forvitnislega en líka næstum fjandsamlega, eins og Ari hafi gert honum eitthvað, eða þá talað illa um Keflavík. Bíllinn rennur aðeins til í hálkunni, eins og bílstjórinn hafi stigið á bremsurn ar, ætli að nema staðar, og í einhverju fáti gengur Ari að næstu dyrum en hikar þegar hann sér skiltið Massage – Nudd. Og girndin fer eins og heitur straumur um hann allan.

Hann lokar augunum.

Afhverju þurfum við að vera svona varnarlaus gagnvart kynhvötinni, hversvegna getum við ekki bara stungið henni í vasann og tekið upp þegar hentar? Það hefur komið fyrir, þegar eilífðarvél kynhvatarinnar fer í gang innra með Ara, eins og hún gerir auðvitað reglulega hjá öllum og tekur sjaldnast tillit til þess hvar við erum stödd í deginum, í tilverunni, fyllir blóðið af þrá eftir einhverju eggjandi, æsandi, einhverju grófu eða þá því sem er fullt af munúð, að Ari hefur farið á netið, slegið inn leitarorðin erotic massage, og að það sé þessvegna sem saklaust skiltið, Massage – Nudd, hafi þessi óþægilegu áhrif á hann. Ari opnar augun, tekur um hurðarhúninn, heyrir að bílstjórinn gefur snögglega í, eins og til að forða sér, eins og hann kæri sig ekki um að vera vitni að þessu, og hverfur niður Hafnargötuna. En hurðin er læst. Úff, hugsar Ari, feginn, en þá rýfur rám karlmannsrödd kyrrðina:

Áttu pantaðan tíma, vinur?

Ari lítur til hliðar og sér hvar maður stendur í opnum dyrum tveimur húsum neðar, horfir á Ara og bætir við þegar Ari ansar engu: hún er nefnilega ekki mætt, hún Snæfríður mín, en ég get hringt í hana ef þér bráðliggur á, ef – maðurinn þagnar, horfir snöggvast niðurfyrir sig, eins og hann sé að leita að rétta orðinu – ef þú vilt láta losa um eitthvað. Það er djúp þögn á Hafnargötunni eftir orð mannsins, engu líkara en að gatan nái tæpast að halda sér vakandi, þrátt fyrir glaðlegu jólaljósin sem blikka sumstaðar af ákafa, eins og Keflavík væri að senda skilaboð til heimsins, jólasveinsins, um að koma með einhverja gjöf sem skiptir máli, þrjúhundruð störf, kvóta, álverksmiðju, sorpeyðingarstöð í Helguvík; eða þá að þessi Snæfríður vakni og komi með sínar mjúku, huggandi hendur.

 



Uploaded byJakus Laura 1.
PublisherBjartur
Source of the quotationEitthvad á stærd vid alheiminn

minimap