This website is using cookies

We use cookies to ensure that we give you the best experience on our website. If you continue without changing your settings, we'll assume that you are happy to receive all cookies on this website. 

Stefánsson, Jón Kalman: Eitthvað á stærð við alheiminn

Portre of Stefánsson, Jón Kalman

Eitthvað á stærð við alheiminn (Icelandic)

Þá síga örlögin af stað, en það snjóar yfir auðar götur Keflavíkur, yfir atvinnuleysi og auglýsingaskilti
Frænka okkar Ara hafði ekki endilega mikla trú á gömlum háttum sem eru hugsanlega kurteis orð yfir hindurvitni, fákænsku, nema þeir hafi þá þvert á móti verið einhverskonar viska sem hélt í okkur lífinu á þessu erfiða landi, þessari stóru, einmana eyju. Lífið hafði sjaldan sýnt henni miskunn, hvorki
menn né örlög, og hún orti eitt kvæði um sína daga. Það var um dóttur hennar, Láru, sem dó einungis átta ára gömul, eftir þung veikindi. Þrátt fyrir ungan aldur virtist hún vita í hvað stefndi, hafði verið undursterk, æðrulaus, en brotnaði undir hið síðasta, vaknaði af móki, glennti upp augun, greip í móður sína og spurði hrædd: mamma, heldurðu að það sé sárt að deyja? Mamma, verð ég þá alein? Og frænka okkar, aldrei kölluð annað en Lilla, brosti og sagði, nei, molinn minn, við
verðum alltaf saman, ég fer aldrei frá þér. En það var mikið átak fyrir hana að ljúga, síðan brosa og halda brosinu yfir dóttur sinni svo hún sæi eitthvað fallegt á þessum síðustu stundum lífsins, og myndi þessvegna trúa því að dauðinn væri bara hliðarskref, andartaks hik fyrir hamingjuna, og hún þyrfti alls ekki að óttast að hann væri grimmur, ljótur kall sem byggi í dökku fjallinu ofan við þorpið. Lillu tókst að halda brosinu en ekki að stöðva tárin sem runnu látlaust úr gráum augum hennar. Hún

hélt utan um Láru og fann hvernig ungt lífið fjaraði út, hélt af öllum mætti ástarinnar, sem er ómælanleg og miklu eldri en sjöhundruð ára gamalt hraunið sem hún sá út um gluggann í húsinu þeirra í Grindavík. Hélt fast en dauðinn togaði miklu fastar á móti, hann togar allt til sín á endanum, blóm og sólkerfi, betlara og forseta. Lilla fann það, hún fann að ástin, tárin, örvæntingin voru gagnslaus, að í námunda við dauðann fyrirfinnst ekkert réttlæti, bara endalok, og þá orti hún kvæðið, gat ekki að því gert, eitthvert óstöðvandi afl knúði hana til þess meðan hún hélt um rýran, átta ára líkamann, fyrir löngu búin að bjóða líf sitt í skiptum, hamingju sína, heilsu, minningar, allt, en var algerlega hunsuð. Allt var gagnslaust og eina sem Lilla gat gert, eina sem hún gat boðið dóttur sinni var að halda utan um hana meðan tárin runnu, hver bænin á fætur annarri, svo falslausar og hreinar að það er óskiljanlegt að ekkert gerðist, þær breyttu engu, kannski er ekkert réttlæti til í þessum
heimi, hvorki snifsi né vottur. En þá, og kannski þessvegna, orti hún kvæðið um dóttir sína. Að hún væri átta ára stelpa með hrokkið, ljóst hár, bjart enni, heiðblá augu, skemmtilega kubbslegt nef og munnur þar undir sem gat hlegið þannig að öll vonska heimsins hjaðnaði og varð að dimmri steinvölu sem hver sem var gat kastað út í buskann.
Yngri bróðir Lillu var skáld, systir hennar líka, en Lilla hafði aldrei getað ort, ekki frekar en eldri bróðir hennar, afi okkar Ara, ekki stafkrók, fyrr en þarna, þegar allt hafði brugðist. Eitt kvæði, tvö erindi, síðan dó heimurinn.Uploaded byRémai marianne
PublisherBjartur
Source of the quotationJón Kalman Stefánsson, Eitthvað á stærð við alheiminn, Bjartur, 2015
Publication date

minimap